Ókeypis peningar

Atvinnuleysistryggingakerfið er bæði ómannúðlegt, fyrirferðamikið og vinnuletjandi bákn. Það sýnir skjólstæðingum sínum enga virðingu. Borgar of lágar bætur. En á sama tíma of háar bætur til að fólk vilji vinna láglaunastörf, þó ekki væri nema tímabundið. Það er fátt sem er jafn þjóðfélagslega óhagkvæmt og atvinnuleysi. Atvinnuleysistryggingasjóður er ekki til þess gerður að vinna bug á atvinnuleysi, þvert í móti.

Að missa vinnu:
Ég hef reynt það að missa atvinnu skyndilega vegna óviðráðanlegra ástæðna. Það er auðmýkjandi tilfinning að þurfa að leita sér hjálpar. Sérstaklega er það niðurlægjandi að þurfa að leita til Vinnumálastofnunar eins og hún er uppbyggð í dag. Mér leið eins og sauðfénaði sem er smalað saman í röð til aftöku. Aftökusveitin er í vinnu við það að reyna með öllum ráðum að borga þér ekki bæturnar. Þú þarft að taka númer, bíða í röð, fylla út eyðublöð, skila vottorðum og gefa fögur fyrirheit um að þú sért að gera þitt besta í atvinnuleit. Aftökusveitin er tortryggin og skikkar þig til þátttöku í ýmsum niðurlægjandi námskeiðum, ætluð sauðum, ef ske kynni að atvinnumissirinn væri af þeim sökum. Einnig þurfa sauðirnir allir að sýna fram á með ýmsum hætti að ekki sé verið að svíkjast undan, enda séu margir þeirra svartir sauðir.

Hvati til atvinnuleitar:
Nýleg grein í morgunblaðinu sýndi fram á að einstætt foreldri þyrfti að vera með 260þús. á mánuði til að það borgaði sig að fara aftur í vinnu. Þetta er síðan gríðarlega óhagkvæmt fyrir þjóðfélagið. Því hver einstaklingur sem lifir á bótum og greiðir ekki skatt kostar ríkið 3-4 milljónir á ári. En eðlilega þá hugsar hver um sig þegar kemur að því að lifa af erfiða tíma. Eðlilega er mönnum ekki efst í huga sameiginlegir hagsmunir okkar allra þegar persónuleg áföll verða. Það er enginn persónulegur ávinningur fyrir fólk með minna en 260 þúsund á mánuði að hraða sér út á vinnumarkaðinn eftir atvinnumissi. Það getur verið gott að bíða aðeins og sjá hvort það komi ekki gullið tækifæri. Er til einhver leið til að mynda þennan hvata önnur en leynilögreglu eftirlit Vinnumálastofnunar? Einhver leið sem brúar bilið milli starfa? Leið sem virkjar allar vinnufærar hendur?

Samtrygging:
Atvinnuleysistryggingasjóður er í augum margra einskonar sameiginleg auðlind fremur en samtrygging. Einhverjir kunna jafnvel að líta á þetta sem ókeypis peninga. Flestir eru búnir að greiða fyrirfram í þennan sjóð óbeint gegnum tekjuskattinn. Er þá nema eðlilegt að menn vilji sækja úr þessum sjóð eins mikið og þeir mögulega geta komi upp sú staða að menn eigi rétt til þess?

Öll greiðum við í lífeyrissjóð. Það er til þess að við eigum til hnífs og skeiðar þegar ellin færist yfir okkur. Séum við þá ekki fær um að taka hvaða vinnu sem er. Séreignarsparnaður okkar eru hlutfall af okkar vinnuframlagi gegnum tíðina. Því meira sem við öflum, því meira leggjum við til hliðar til elliáranna. Þetta er okkar peningur, hversu lítill eða mikill sem hann svo verður. Þá er þessi sparnaður okkar persónulega eign.

En af hverju er þetta ekki eins farið með atvinnuleysistryggingarnar? Af hverju er ekki hluti af okkar launum lagður í sjóð til mögru áranna? Þetta væri sjóður af okkar eigin peningum, sem við hefðum aðeins aðgang að þegar atvinnuleysi knýr að dyrum. Nákvæmlega eins og lífeyrissjóðirnir gera þegar ellin knýr að dyrum. 

Betri lausn:
Það væri jafnvel einfaldlega hægt að láta lífeyrissjóðina sjá um að greiða út uppihald fyrir atvinnulausa. Þetta væru þá þeirra eigin peningar. Það þyrfti enga leynilögreglu sem fylgdist með því hvort menn væru að svíkjast undan, enda væru menn aðeins að ganga á eigin varasjóð. Það væri því okkar eigin hagur að taka hvaða vinnu sem er til að brúa bilið milli draumastarfana. Væri jafnvel hægt að hugsa sér að fara blandaða leið, menn gætu unnið launalitla vinnu og fengið greiðslu úr lífeyrissjóði sínum til að koma til móts við lág laun. Kostur við þessa leið væri einnig að menn gætu staðið í skilum með greiðslubyrði sína s.s. húsnæðislán. Enda miðaði greiðslubyrðin sem menn undirgengust við að menn hefðu hærri laun.

Þetta fyrirkomulag myndi spara þjófélaginu tugi milljarða ár hvert. Einnig myndi þetta gera þeim sem eru staddir á óþægilegum stað atvinnulega séð, tækifæri til að standa skil á sínum skuldbindingum þrátt fyrir að þurfa að ganga tímabundið í launaminni störf. Eða ef menn kjósi að bíða heldur eftir draumastarfinu, þá geri menn það á eigin kostnað.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þessu. Ég hef tvisvar þurft að leita á náðir Vinnumálastofnunar og það var, eins og þú segir, mjög niðurlægjandi. Reyndar fannst mér líka mjög niðurlægjandi að taka "hvaða starf sem er" þar til ég fann sæmilega vinnu, en það að mér fannst sú reynsla niðurlægjandi var örugglega bein afleiðing þess sem á undan var gengið hjá Vinnumálastofnun.

Kári Ævarsson (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband