29.9.2009 | 01:15
Er banki það sama og sparibaukur?
Er banki það sama og sparibaukur?
Öruggur staður til að geyma peningana sína?
En hvernig verða þá vextirnir til?
Ég held að flestir viti þetta en gleyma kannski að hugsa út í það. En Vextirnir verða til með því að bankinn lánar einhverjum öðrum innistæðurnar í þeirri von að lántakandinn nái að gera enn meiri peninga úr þeim og skili þeim til baka ásamt lítilli þóknun. Þannig virkar ávöxtun: hún er í raun ekki annað en það að bankinn þinn er að fjárfesta fyrir þína peninga. Með því að leggja fé í banka ertu að treysta bankanum þínum til að fjárfesta skynsamlega með þína peninga.
Nú eru flestir bankar mjög passasamir með fé viðskiptavina sinna, en stundum eru þó gerð mistök. Peningar voru kannski lánaðir í eitthvert fyrirtæki sem leit vel út en heppnaðist ekki fyrir rest. Kannski fór heilmikið af fé í einhvern einstakling sem fór illa að ráði sínu osfrv.
Þetta er í raun nákvæmlega það sama og að kaupa hlut í einhverjum öðrum rekstri, eða að lána fé þitt til að einhver annar geti ávaxtað fyrir þig. t.d. í pylsusölu.
Pulsubankinn:
Gefum okkur að þú leggir inn sem svarar einni pulsu í pulsubankann gegn loforði um að pulsan muni safna vöxtum og verða orðin að tveimur pulsum eftir 3 ár.
Hvaðan kemur þessi auka pulsa?
Nefnilega þá notar pulsusalinn þessar auka pulsur sínar frá þér og öðrum viðskiptavinum til að kaupa gosvél eða þá að hann ræðst í aðra fjárfestingu sem hugsanlega getur skapað honum auknar tekjur. Þannig fær pulsusalinn aukin viðskipti og getur því auðveldlega greitt þér tvær pulsurnar sem hann lofaði að þremur árum liðnum og jafnvel greitt sjálfum sér og starfsfólki sínu meiri laun.
En hvað ef þetta gengur ekki eftir? Hvað ef vonda ríkisstjórnin setur t.d. á óvæntan sykurskatt sem gerir allt gosið svo dýrt að pylsusalinn nær ekki að borga fyrir gosvélina á réttum tíma? Hvað ef lánveitendur vilja skyndilega innheimta skuldirnar en pylsusalanum vantar heilmikið uppá til að geta staðið í skilum?
Nú stendur pulsubankinn frammi fyrir tveimur möguleikum:
1. Hann verður að reyna að framlengja í lánum sínum og halda áfram að rembast í gosinu á sama tíma og hann sannfærir innistæðueigendur um að allt sé í lagi, því ef nógu margir skildu koma og innheimta pulsurnar sínar þá fer hann á hausinn, hann þarf pulsurnar til að halda rekstrinum gangandi svo líf hans veltur á því að innistæðueigendurnir treysti honum.
2. Hann verður einfaldlega að fjárfesta enn meira og skella sér í meiri áhættu til að geta staðið í skilum. Svo hann ákveður að bjóða enn hærri vexti í þetta sinn: 3 pulsur á þremur árum! Með þessu slær hann reyndar tvær flugur í einu höggi því honum tekst að sannfæra innistæðueigendur og jafnvel sjálfan sig um að allt sé í sóma.
..Innistæður fyrir pulsum streyma inn, enda sjá menn mikla gróðavon í þessu gylliboði. Það dettur engum í hug að spyrja hvað á að gera við þessar auka pulsur. Þetta lítur allt vel út. Ávöxtunin er góð. Innistæðan er örugg.
Pulsubankinn fær sér nýtt útibú pulsustand af flottustu gerð, borgar út arð og framreiknar gróða handa öllum lykil starfsmönnum. Býður öllum í pulsupartý.
Síðan kemur skyndilega svínaflensa, gin og klaufaveiki, kúariða og sannkallaður heimsfaraldur fyrir kjötiðnaðinn. Mörg sláturfélög fara á hausinn. Pulsusalinn skuldar sláturfélaginu og fær ekki fyrirgreiðslu á fleiri pulsupakka.
Nú eru öll sund lokuð. Pulsusalinn getur hvorki starfað né endurpulsað sig og fer á hausinn. Árans vandræði!
Menn óttast um pulsuinnistæðurnar sínar og gera áhlaup á pulsusölurnar í von um að leysa út sínar pulsur. En það er útlit fyrir að mikið af pulsum hafi farið til spillis í þessu óláns ævintýri öllu.
Núna stendur ríkisstjórnin frammi fyrir tveimur möguleikum:
1. Hún ríkisvæðir pulsusöluna enda séu þetta þjóðhagslega mikilvægar pulsur, svo þarf líka að halda pulsuflæðinu gangandi. Annars væri hætta á pulsuskorti í nokkra daga. Ríkisstjórnin greiðir síðan upp allar pulsuskuldirnar úr vasa almennings, líka þeirra sem þóttu pulsur ekkert sérlega góður matur og kusu sér að geyma innistæður sínar annarstaðar.
2. Ríkisstjórnin leyfir pulsusölunni að fara á hausinn. Þeir sem eiga kröfur í þrotabúið fari síðan dómsleiðina til að fá sínar pulsur úr þrotabúinu, eins og hægt er. Svo er líka pulsutryggingasjóður innistæðueigenda sem bætir ákveðið lágmarks tjón. Ríkið sé þannig laust við allar skuldbindingar enda var pulsubankinn einkarekið fyrirtæki.
Hverjum er svo um að kenna? Hverjir bera ábyrgð?
Það eru nokkrir mögulegir kostir til að svara þeirri spurningu. Menn fara að hrópa hver á annan um orsök þess að pylsusalan fór forgörðum og komu með ýmsar skýringar:
- Pulsusalinn er ábyrgur - Hann fór illa að ráði sínu, gerði mistök í fjárfestingu og neitaði að horfast í augu við allar viðvaranir um of mikla skuldsetningu.
- Ríkisstjórnin er ábyrg - Ef ríkisstjórnin hefði gripið inn í miklu fyrr þá hefði þetta ekki farið svona illa, segja sumir.
- Regluverkið er gallað - Ef það hefðu verið skýrari reglur um starfsemi og fjármögnun pulsubankans þá hefði þetta ekki getað gerst.
- Þeir sem settu sláturfélagið á hausinn eru ábyrgir - Ef sláturfélagið hefði lifað þá hefði pulsusalan náð að vinna sig út úr vandanum. Sláturfélögin áttu að vera undir það búin að það kæmi erfiður tími.
- Svínaflensu, gin og klaufaveikifaraldurinn og allt það ástand er orsökin - Án þessa alls hefðu sláturfélögin ekki öll farið á hausinn.
- Ríkisstjórnin ber ábyrgð á töpuðu fé almennings - Stærstu mistök ríkisstjórnarinnar voru að ríkisvæða tapið, segja sumir.
- Innistæðueigandinn og hluthafi í bankanum er ábyrgur - Pulsuinnistæðueigendurnir gáðu ekki að því hvað var verið að gera með þeirra fé og flutu sofandi að feigðarósi. Þeir héldu að pulsur yxu á trjánum og kærðu sig kollótta um þá viðskiptahætti sem voru stundaðir með þeirra fé. Þeim finnst síðan sjálfsagt að almennir skattgreiðendur borgi fyrir sofandahátt þeirra.
Það væri mikil einföldun að taka einhverja eina af þessum ástæðum og gera að meginorsök. Þetta eru allt samverkandi þættir í því klúðri sem samfélagið situr nú uppi með.
Hvaða lærdóm má draga af þessu ævintýri öllu?
Nokkrar tilgátur sem koma fram gætu verið:
- Einkareknir pylsusalar eru vondir, slíkt á að vera í ríkiseigu, enda gerir ríkið aldrei mistök og fer alltaf vel með peningana okkar.
- Regluverkið er gallað: það þarf að stoppa í örfá göt.
- Kapitalisminn er ónýtur: það þarf að snúa öllu á hvolf, hugsa allt upp á nýtt og finna hjólið upp aftur.
- Þetta er bara spilling og þjófnaðir sem ekki er hægt að koma algjörlega í veg fyrir. Dómstólarnir munu sjá um þá sem hafa gert rangt.
- Innistæðueigendur og fjármagnseigendur þurfa að passa betur hvernig farið er með eigur þeirra. Auka þarf fjárhagslega vitund hins almenna pulsueiganda.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:01 | Facebook
Athugasemdir
Það er uffsilon í pylsa. :D
Góð samantekt og einföldun en þú gleymdir að pylsubankinn hefur falinn 3ja möguleikann.
http://www.youtube.com/watch?v=gVjR6SPEPpE
Þorsteinn Ólafsson (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 09:10
hárrétt athugað Þorsteinn, hann hefði hæglega getað stofnað hamborgarabúllu, tekið lán fyrir borgarabúlluna fyrir allskyns tækjum sem hann lánaði síðan áfram í pylsubúlluna. Bölvaður óþokkinn!
En þetta er s.s. ekki alveg raunverulegt dæmi hjá mér, bara eittvað svipað sem gæti gerst ;)
Viðar Freyr Guðmundsson, 29.9.2009 kl. 19:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning