22 ástæður til að segja nei við tillögum stjórnlagaráðs:

 


1. Já þýðir að þú samþykkir tillögurnar óbreyttar. “Það verður ekkert lagað seinna.”


Ef þú ert með minnsta fyrirvara þá verðurðu að segja nei. Það er ekki hægt að ætlast til að maður kaupi bilaðann bíl í þeirri von að seljandinn geri við hann síðar. Þegar kaupin ganga í gegn ertu búinn að samþykkja vöruna í því ástandi sem hún er. Það er eins með þessar tillögur að stjórnarskrá. Þetta staðfesta t.d. ummæli Þorvaldar Gylfasonar sem situr í stjórnlagaráði, en hann sagði í Kastljósi þriðjudaginn 9. október að ef að svarið yrði já : “Þá getur alþingi ekki annað en samþykkt drögin óbreytt sem stjórnarskrá”.

Valgerður Bjarnadóttir formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis sagði í fréttum Stöðvar 2 þann 14. október aðspurð hvort tillögurnar yrðu samþykktar af alþingi óbreyttar: “Efnislega óbreytt já, en kannski einhverjar orðalagsbreytingar” Annar félagi í stjórnlagaráði, Pawel Bartoszek skrifaði grein um málið sem var titluð: “Það verður ekkert lagað seinna”. En titillinn segir allt um innihaldið.


2. Umbylting á stjórnarskránni veldur því að dómafordæmi sem vísa í stjórnarskrána verða að engu. Það gæti tekið mörg ár fyrir réttarkerfið að greiða úr þeirri flækju með tilheyrandi kostnaði.


Allar þessar orðalagsbreytingar í tillögum stjórnlagaráðs virðast kannski sakleysislegar en lögspekingar hafa bent á að þetta geti haft alverleg áhrif á dómskerfið þar sem dómafordæmi sem vísa t.d. í einhverja grein í gömlu stjórnarskránni eru nú orðin að engu þegar sú grein er kannski ekki lengur til eða orðuð á allt annan hátt.

 

3. Með því að segja nei hefur ekkert breyst og er því jafn auðvelt og áður að breyta stjórnarskránni. Þá verður t.d. hægt að nýta tillögur stjórnlagaráðs og þróa þær áfram.

4. Í tillögum stjórnlagaráðs er ekki gerð nein tilraun til að leiðrétta loðin og misskiljanleg mannréttindaákvæði. Þannig að með því að samþykkja tillögurnar er verið að festa enn frekar í sessi þessi gölluðu mannréttindaákvæði sem illviljuð stjórnvöld gætu hæglega beitt gegn borgurum sínum. En góð stjórnarskrá er einmitt ætluð til að vernda borgarana gegn stjórnvöldum. Sú gamla er ekki fullkomin, en það er ekki til bótar að samþykkja aftur gallana.


Hér á eftir fyglja svo atriði í tillögunum sem ég geri athugasemd við. Hvert þessara atriða eitt og sér ætti að vera ástæða til að segja nei (vísa í fyrsta lið hvað það varðar).

     

    5. Í 8. grein tillagna segir: “Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn.” Þetta er mjög óskýrt svo ekki sé meira sagt og hægt að túlka eftir hentugleika. Stjórnarskrá á einmitt ekki að innihalda slíkt.

    6. Í 13. gr. Tillagna er búið að bæta við stjórnarskrána: “Eignarrétti fylgja skyldur og takmarkanir í samræmi við lög”. Svona undanþága getur hæglega gert eignarréttinn að engu allt eftir því hvað stjórnvöldum sýnist.

    7. Í 14. gr. Tillagna er búið að bæta “börnum” við í lista yfir átyllur sem ríkisvald getur notað til að brjóta á tjáningarfrelsi manna. Þegar menn eru farnir að beita börnum fyrir sig þá er illt í efni. Ég ætla ekki í frekari málalenginga hér um hvað væri hægt að réttlæta með því að segja það “til verndar börnum”.

    8. Í 16. gr. Tillagna er farið gegn eignarréttinum með því að banna mönnum að ritstýra eigin fjölmiðli eins og menn sjálfir vilja.

    9. Í 17. gr. Tillagna er kveðið á um frelsi “vísinda, fræða og lista” og er algjörlega óljóst hvað frelsi þýðir fyrir þessi hugtök og hver ábyrgð ríkisins er þá til að viðhalda því frelsi.

    10. Í 18. gr. Tillagna er banni við trúarskoðun sem ekki samræmist “góðu siðferði eða allsherjarreglu”, sem hlýtur að vera skilgreint skv. ríkisvaldinu breytt í bann við trú sem ekki samrýmist “lýðræðislegu þjóðfélagi”. Sem er ekki síður loðið, pólitískt og óljóst hvað þýðir.

    11. Í 21. gr. Um fundafrelsi er banni við fundum sem “uggvænt þykir að leiði af sér óspektir” breytt í bann við fundum sen nauðsynlegt er að banna “í lýðræðislegu þjóðfélagi”. Það er klárt að hið síðarnefnda er mun loðnara og hægt að beita sem vopni í pólitískum tilgangi.

    12. Í 22. gr. Tillagna er kveðið á um að öllum skuli tryggður réttur til “Lífsviðurværis”. En þetta þýðir í raun að menn geti lagt niður vinnu og látið aðra sjá um sig.

    13. Í 24. gr. Tillagna er kveðið á um skólaskyldu og að allir skuli læra um “Lýðræðisleg réttindi og skyldur”. Þá er aðeins hægt að álykta að það verði ríkið sem ákveði hvað er satt og rétt í þeim efnum.

    14. Í 25. gr. Tillagna er dregið úr atvinnufrelsi manna með því að láta ríkið diktera hvað teljist: “mannsæmandi vinnuskilyrði, hvíldar orlofs og frítími og sanngjörn laun.”

    15. Í 34. gr. Tillagna er almenningi sem ekki hefur þegar fengið landareign (náttúruauðlind) í arf gert ómögulegt að eignast landareign í framtíðinni nema að kaupa einhverja þá eign sem þegar er í einkaeigu. En þær eignir munu rjúka upp í verði sé þetta ákvæði sett í stjórnarskrá og því ólíklegt að nýliðun verði í greinum sem tengjast auðlindum þessa lands.

    16. Í 34. gr. Tillagna eru náttúruauðlindir sem ekki eru þegar í einkaeigu þjóðnýttar um ókomna tíð með öllum þeim pólitísku hrossakaupum, spillingu, klúðri og sukki sem jafnan fylgir slíku (nægir að nefna Orkuveitu Reykjavíkur).

    17. Í 65. gr. Tillagna er kveðið á um að 10% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hlutfall er svo lágt að það getur hæglega gert alþingi óstarfhæft, sem einhverjum þykir kannski ágætt. Sem dæmi má nefna að Hreyfingin fékk um 10% atkvæða í seinustu alþingiskosningum og gæti því tafið öll mál ef þeim sýndist svo.

    18. Í 68. gr. Tillagna er kveðið á um að 2% kjósenda geti lagt fram þingmál á alþingi. Þannig gæti hópur um 6000 manna sent inn aragrúa þingmála og lamað störf þingsins.

    19. Í 67. gr. Tillagna er vandlega girt fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslur geti farið fram um mikilvægustu málin, s.s.: Fjárlög og fjáraukalög. Þarna er líka sérstaklega farið gegn þjóðaratkvæðagreiðslum um lög “sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum” og verður ekki annað séð en að icesave þjóðaratkvæðagreiðslan hefði þá verið úr sögunni.

    20. Í 69. gr. Tillagna er stjórnmálamönnum gefin heimild til að taka fé úr ríkissjóði án þess að um það sé getið í lögum ef “almannahagsmunir krefjast þess.”

    21. Í 111. gr. Tillagna er kveðið á um að hægt sé að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana. Þó er sá fyrirvari að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram um slíkt, en með hliðsjón af 113. gr. Þar sem segir að ef 5/6 hluti alþingismana samþykki, þá þurfi ekki þjóðaratkvæði, þá er þetta hættuleg viðbót.

    22. Í 113. gr. Tillagna er kveðið á um að alþingi geti breytt stjórnarskrá eftir eigin geðþótta sé fyrir því 5/6 hluta þingmeirihluti. Með þessu gæti alþingi t.d. Breytt Íslandi í einræðisríki: látið þingsetu ganga í arf og afnumið allar kosningar. Þetta er því sérlega varhugavert ákvæði.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og sautján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband