"Meira af allskonar"

Ég var á seinasta landsfundi XD núna 2011.  Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þann fund fyrir margar sakir sem ég ætla ekki að telja allar hér.  En það helsta var að landsfundurinn virðist vera miðstöð fyrir sérhagsmunahópa til að koma málefnum sínum að.  Ég fékk að kynnast því af eigin raun þar sem ég sat í menntamálanefnd og gat komið mínum persónulegu skoðunum á menntamálum nokkuð auðveldlega inn í ályktunina, sem kostaði reynda að ég sæti þarna heilan dag. Þarna voru líka staddir fulltrúar frá íþróttahreyfingunni sem lobbýuðu hressilega inn í ályktunina að þeirra skjólstæðingar fengju "meira af allskonar", eins og Jón Gnarr myndi orða það.

Ég reyndi að standa gegn þessu og benti á að þetta ætti ekki skylt við hægristefnu, en það voru fáir viðstaddir sem vildu standa með hagsmunum skattgreiðenda. Svo er nánast enginn öryggisventill þegar ályktunin er samþykkt í heild, en það var ekki gefið færi á að ræða þessi atriði neitt.

Hin óumflýjanlega niðurstaða af þessu er að í öllum málaflokkum verður "meira af allskonar" ofan á. Ef landsfundarályktanir allar eru skoðaðar má sjá að það er raunin í öllum málefnanefndum á landsfundi.

Lægri skattar, hærri útgjöld
Samkvæmt sumum hagfræðikenningum er hægt að lækka skatta og fá samt meiri tekjur inn í ríkissjóð, allt eftir því hvar við erum stödd á svokallaðri 'Laffer kúrvu'. En kúrva sú er kenning um samhengi milli skattheimtu og skatttekna.  Ég ætla ekki að útskýra þá kenningu mikið hér heldur benda á að EF við erum stödd þeim megin á Laffer boganum að lækkun á sköttum muni skila meiri tekjum, þá er samt sem áður ekki hægt að lækka mikið áður en tekjurnar komast á sama stað aftur eða byrja að minnka frá því sem nú er.  Þannig er það samt sem áður óábyrgt samkvæmt þessum kenningum að tala fyrir auknum útgjöldum og skattalækkunum á sama tíma. Á endanum mun það þýða skuldasöfnun og skattlagningu á framtíðina.
 
Siðferði skattlagningar 
Þrátt fyrir að tekjur ríkissjóðs gætu aukist með vandlega hugsuðum skattalækknum, þá er samt siðferðilega rangt að hafa það að markmiði að hámarka tekjur ríkisins því það er alltaf gert á kostnað almennings. Sú hugsun að hámarka tekjur af skattheimtu er í raun sú hugsun að vera með skattheimtu á þolmörkunum. Ríkið ætti að vera það sem á ensku er kallað 'necessary evil'.. nauðsynleg illska. Skv. því ætti að lækka skatta þannig að þeir standi undir því allra nauðsynlegasta og engu öðru. Ríkissjóður er ekki dótakista sem sérhagsmunahópar geta sótt í að vild. Ríkissjóður er ekki ókeypis peningar heldur stolnir peningar. Enginn borgar skatta vegna þess að hann vill það, sem sannast á því að enginn hefur enn boðist til að greiða meira en honum ber.
 
 Vanþekkinng sjálfstæðismanna
Ætla mætti að sjálfstæðismenn séu almennt ekki meðvitaðir um samhengi þessara hluta.  Aukin ríkisútgjöld kalla á meiri skatta.  Hvernig er hægt að kalla eftir lægri sköttum á sama tíma og ekki er tekið á því sem skera þarf niður, nei, heldur er einfaldlega gefið í og fundið upp á nýjum útgjaldaliðum.  Þetta vinnulag ber ekki vott um skynsemi eða skilning á fjármálum. En kannski er skýringin sú að landsfundarfulltrúar hafa enga heildarsýn á stefnu flokksins og ályktanir? Ef landsfundur sjálfstæðisflokksins ætlar að láta taka mark á sér þá verður að bæta þetta. Sumir segja að landsfundurinn sé bara froða og engu máli skipti hverju þar sé lofað.  Líta menn þá á landsfundinn sem ódýrt bragð til að plata kjósendur? Er kannski gott fyrir kosningar að lofa "meira af allskonar" en gera svo eitthvað annað eftir kosningar?  Hvernig getum við þá treyst því að vilji sé til að lækka skatta? Hvernig getum við þá treyst neinu sem fram fer á landsfundi?
 
Leið til lausnar á vandanum 
 Landsfundur sjálfstæðisflokksins er aðeins ein helgi. Stærstur hluti þess tíma fer í ræðuhöld og allt annað en málefnavinnu.  Þessi knappi tími sem þá er eftir er illa nýttur. En hann fer í það að semja nýja landsfundarályktun ár hvert.  Það þýðir að lítill sem enginn tími gefst fyrir gagnrýna hugsun og að heildarmyndin sé skoðuð. Ég hef aðeins mætt á tvo landsfundi og hef samt séð þetta þróast til verri vegar, umræður í sal eru smám saman að hverfa.  Það sem gæti lagað þetta væri að í stað þess að semja nýja ályktun á næsta ári, sem verður í grunninn sú sama og síðast, að nýta tímann þess í stað til að fara yfir seinustu ályktun og sníða af henni vankanta. Þá er hægt að bæta við ef eitthvað vantar. Með þessu væri hægt að ræða málin og viðhafa eðlilega gagnrýni.  Viljum við virkilega hafa þetta svona? Er eitthvað í ályktuninni sem stangast á við eitthvað annað? Er hægt að lofa öllum þessum skattalækkunum með öllum þessum nýju útgjaldaliðum?  Þarf að skera eitthvað meira niður? Viljum við virkilega "meira af allskonar"?
 
 Heiðarleiki vinnur til lengri tíma litið
Hinn popúlíski stjórnmálamaður er alltaf hræddur við að stinga upp á niðurskurði. Hann vill ekki fara gegn sérhagsmunahópunum og taka áhættuna af því að missa atkvæði þeirra eða verða fyrir gagnrýni.  Þetta er stærsta vandamál stjórnmálanna í dag. En sá stjórnmálamaður sem er samkvæmur sinni sannfæringu, kemur heiðarlega fram og er óhræddur við að kynna málstað sinn með skynsemi og rökræðum, sá stjórnmálamaður mun á endanum verða leiðtogi. Sá sem togar þjóðina rétta leið.
 
Samantekt úr landsfundarályktunum
Með þetta allt saman í huga gerði ég samantekt úr landsfundarályktunum sem sýna hvað átt er við hér svart á hvítu. Vona að þetta verði til þess að sjálfstæðisflokkurinn taki sig saman í andlitinu og fari að huga að hag skattgreiðenda.  Sjá skýrsluna hér í viðhengi. 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband